Námskráin og lykilhæfni aðalnámskrár

Námsefnið í Verkefnabanka Heimspekitorgsins miðar að því að efla samræðufærni nemenda með því að glíma við heimspekilegar spurningar. Færni í samræðu byggir á ýmsum þáttum sem skilgreindir eru sem lykilhæfni í Aðalnámskrá grunnskóla 2013. Lykilhæfni sem námsefninu er ætlað að stefna að eru:

  • Tjáning og miðlun. Við lok grunnskóla á nemandi að geta:
    • tjáð hugsanir sínar, hugmyndir og tilfinningar á skipulegan, skýran og viðeigandi hátt,
    • brugðist með rökum við upplýsingum og hugmyndum sem eru á margvíslegu formi, tekið þátt í rökræðum um viðfangsefni og rökstutt mál sitt af yfirvegun og tekið tillit til ólíkra sjónarmiða
  • Skapandi og gagnrýnin hugsun. Við lok grunnskóla á nemandi að geta:
    • spurt rannsakandi spurninga, skipulagt eigin áætlun og endurskoðað ferli við efnistök og úrvinnslu verkefna
    • skilgreint og rökstutt viðmið um árangur
    • verið óhræddur að nýta sér mistök og óvæntar niðurstöður á gagnrýninn og skapandi hátt og séð í þeim nýja möguleika
    • tekið upplýsta afstöðu til gagna og upplýsinga, dregið ályktanir og skapað eigin merkingu
    • beitt mismunandi sjónarhornum, gagnrýninni hugsun við mótun og miðlun viðfangsefna á skapandi hátt.
  • Sjálfstæði og samvinna. Við lok grunnskóla á nemandi að geta:
    • tekið frumkvæði í námi sínu og verið sjálfstæður og ábyrgur í vinnubrögðum
    • gert sér grein fyrir hvernig hann nýtir styrkleika sína og hefur skýra sjálfsmynd
    • unnið með öðrum og tekið á jákvæðan hátt þátt í samskiptum og lagt sitt af mörkum í uppbyggilegu samstarfi
    • verið leiðandi í samstarfi og borið ábyrgð í útfærslu leiða að sameiginlegum markmiðum
    • nýtt hæfni sína til að vera virkur og ábyrgur borgari í lýðræðislegu samfélagi
    • tekið leiðsögn og gagnrýni á uppbyggilegan hátt og að sama skapi sett eigin gagnrýni uppbyggilega fram
  • Nýting miðla og upplýsinga: Við lok grunnskóla á nemandi að geta:
    • nýtt fjölbreytta miðla og hjálpartæki á ábyrgan hátt við að leita upplýsinga og til stuðnings í námi sínu,
    • sýnt ábyrgð í meðferð upplýsinga og heimilda ogverið meðvitaður um siðferðislegt gildi ábyrgrar netnotkunar og tekur ábyrgð á eigin samskiptum á neti og netmiðlum.
  • Ábyrgð og mat á eigin námi. Við lok grunnskóla á nemandi að geta:
    • gert sér grein fyrir hvernig hann getur hagnýtt sterkar hliðar sínar á skapandi hátt í námi og haft skýra sjálfsmynd
    • sett sér raunhæf markmið um frammistöðu og framvindu eigin náms, unnið eftir þeim og lagt mat á hvernig til hefur tekist

Til að ná hæfniviðmiðunum er námsefnið byggt upp til að þjálfa ákveðna færni og viðhorf og viðhorf nemenda. Færni- og viðhorfa markmiðum er raðað á 3 þrep sem hægt er að vinna eftir óháð aldri nemenda. Nemendur á hvaða aldri sem er þurfa að hafa tileinkað sér markmiðin á þrepi 1 til þess að hafa forsendur til að ná markmiðum á þrepum 2 og 3. Markmiðin á þrepi 3 eru talsvert flókin og sérhæfð og því ekki ástæða til að stefna að þeim fyrr en á unglinga- og framhaldsskólastigi.

Færnimarkmið þrepi 1:
  • Nemandi hlustar og horfir á þann sem talar
  • Nemandi virðir það að einn tali í einu
  • Nemandi spyr heimspekilegra spurninga
  • Nemandi segir skoðun sína
  • Nemandi segir „ég er sammála/ósammála… um… af því að… “
  • Nemandi getur bent á tengsl milli tveggja eða fleiri hugmynda (t.d. „… er eins og…” eða „… er allt öðruvísi en…”)
  • Nemandi rökstyður mál sitt
  • Nemandi notar dæmi
Viðhorfamarkmið þrepi 1:
  • Nemandi sýnir forvitni
  • Nemandi einbeitir sér að viðfangsefninu
  • Nemandi þorir að segja skoðun sína
  • Nemandi sýnir vilja til að útskýra mál sitt
  • Nemandi sýnir vilja til að skilja aðra
  • Nemandi sýnir vilja til að hugsa með öðrum
Færnimarkmið þrepi 2:
  • Nemandi notar gagndæmi
  • Nemandi byggir á því sem á undan er sagt
  • Nemandi dregur rökréttar ályktanir
  • Nemandi getur bent á forsendur hugmynda
  • Nemandi tengir hugmyndir í flokka eftir sameiginlegum einkennum (Categorize)
  • Nemandi getur greint góð rök frá slæmum rökum
  • Nemandi leiðréttir sjálfan sig í ljósi nýrra raka Nemandi notar spurningar til að stjórna og dýpka samræðuna (sókratískar spurningar)
Viðhorfamarkmið þrepi 2:
  • Nemandi sýnir vilja til að rannsaka ágreining
  • Nemandi hefur hugrekki til að setja fram sjálfstæða skoðun og spurningu
  • Nemandi þorir að gagnrýna eigin hugmyndir og annarra
  • Nemandi viðurkennir eigin vanþekkingu
  • Nemandi getur sleppt eignarhaldinu af hugmynd og eignað hópnum hana
Færnimarkmið þrepi 3:
  • Nemandi getur nefnt hugtak til að gera grein fyrir ákveðnum hugmyndum (conceptualize)
  • Nemandi gerir greinarmun á staðreyndum og gildum
  • Nemandi þekkir muninn á afleiðslu og tilleiðslu
  • Nemandi þekkir algengustu rökvillur
  • Nemandi finnur faldar forsendur
  • Nemandi getur útskýrt ólík sjónarmið
  • Nemandi gagnrýnir uppbyggilega
Viðhorfamarkmið þrepi 3:
  • Nemandi sýnir næmni fyrir tilfinningalegum viðbrögðum annarra
  • Nemandi byggir upp samstarf með því að hjálpa öðrum í samræðunni
  • Nemandi sýnir frumkvæði í að beita gagnrýninni hugsun og umhyggju
  • Nemandi virðir skoðanir annarra þannig að þær geta raunverulega haft áhrif á hugsun hans
  • Nemandi heldur aftur af eigin hugmynd í þágu rannsóknar
%d bloggurum líkar þetta: