Á Vísindavef háskóla Íslands er heilmikið af heimspekilegu efni. Heimspekikennarar á unglingastigi grunnskólans hafa nýtt þetta efni á ýmsan hátt. Þegar nemendur eru að kynnast heimspeki í fyrsta sinn getur verið mjög hjálplegt að sjá úrval heimspekilegra spurninga og margvísleg svör við þeim og þetta er einmitt til staðar á Vísindavefnum.
Jóhann Björnsson heimspekikennari í Réttarholtsskóla hefur leyft nemendum að leita frjálst á Vísindavefnum og velja þaðan uppáhaldsspurningarnar sínar. Þessu úrvali spurninga er hægt að safna saman, t.d. í hatt og nýta á ýmsan hátt. Það má láta hattinn ganga um stofuna, hver nemandi dregur spurningu úr hattinum og hún er rædd í 5 mínútur í bekknum. Það má nýta spurninga úrvalið í heimspekileik eins og Jason Buckley gefur uppskrift að hér í Verkefnabankanum.
Hér að neðan er kennsluseðill frá Brynhildi Sigurðardóttur heimspekikennara í Garðaskóla. Í verkefninu er röð spurninga sem eru ætlaðar til að leiða nemendur inn í rannsókn á Vísindavefnum. Nemendur þurfa að velta fyrir sér hvað einkennir heimspekilega spurningu og spyrja sjálfir slíkra spurninga. Þessu verkefni hafa nemendur skilað til yfirferðar og það hefur gefið kennurum mikilvæga innsýn í upphafi skólaárs um styrkleika og veikleika nemenda í skriflegum vinnubrögðum. Þær upplýsingar nýta þeir til að meta hversu mikið skrifleg verkefni eru nýtt á skólaárinu til viðbótar við heimspekilegu samræðuna sem er uppistaða námsins í heimspekivali skólans. Read more ›