Nemendur vilja tala saman, heyra hvað hinir hafa að segja og segja frá sínum eigin skoðunum. Þeim finnst skemmtilegt að heyra nýjar hugmyndir og takast á um ágreiningsefni. Heimspekileg samræða er tækifæri til að gera þetta í skólanum og læra af því. Verkefnið hér að neðan er gott til að láta bekkinn setja sér grunnviðmið eða reglur um hvaða hegðun skapi góða samræðu í hópnum. Verkefnið byggir á hugmyndum Maughn Gregory um að atferli í samræðufélaginu byggi á þeim gildum sem starf hópsins grundvallast á.
Verkefnið í hnotskurn
- Aldur nemenda: 9 ára og upp úr
- Viðfangsefni: Hópurinn setur sér reglur um hvaða hegðun sé viðeigandi til að byggja upp gott samræðufélag
- Færni- og viðhorfamarkmið: Nemendur velja færniþætti eftir þörfum og framvindu hópsins. Kennari ber val þeirra saman við markmið í námskrá Verkefnabankans og metur hvenær þörf er á að benda nemendum á að endurskoða samræðureglur hópsins
- Efni og áhöld: tafla til að skrifa upp hugmyndir nemenda
- Tími/umfang: 5-30 mínútur
- Höfundur verkefnis: Brynhildur Sigurðardóttir